top of page

Ég fer í alla skóla sem vilja fá mig til að lesa upp og spjalla við krakkana um bækur og allt hitt. Ég er ástríðuveiðimaður, áhuga-smiður og efnilegasti knattspyrnumaður landsins. Ég tala ensku, sænsku og serbó-króatísku en get bjargað mér á dönsku, þýsku, frönsku og spænsku. Ég var einu sinni rosagóður á skíðum (fullt af medalíum og einn bikar) og er oftast hress. :)
Ég er giftur leikkonunni, leikskáldinu og leikstjóranum Björk Jakobsdóttur og við eigum tvo stráka, Ásgrím (´93) og Óla Gunnar (´99) sem verða örugglega leikarar líka.
Svo er það hundurinn Esja, hvolpurinn Grímur og hestarnir 7!

 

En ég er stundum spurður að því af hverju ég skrifa barnabækur.

 

Ég fæddist inn í mjög skemmtilega og hressa fjölskyldu. Mamma var hressasta mamman í blokkinni (Háaleitisbraut 18 – sögusvið Gogga og Grjóna) og þótt víðar væri leitað. Hún var alltaf að láta okkur krakkana gera eitthvað. Safnaði saman fullt af krökkum og lét okkur fara í leiki eða syngja. Hún spilaði á gítarinn eða píanóið þó hún segðist ekkert kunna á hljóðfæri.  Svona nett mamma klikk.

 

Ég á tvíburabróður, hann Ásmund og tvö eldri systkini, Nínu og Hallgrím. Ég deildi herbergi með Nínu (Ási með Hallgrími) alveg þangað til að hún varð svo unglingaveik að mamma og pabbi ákváðu að við þyrftum stærri íbúð þar sem Nína (og Hallgrímur) fengju sérherbergi. Reyndar svaf amma Malla inni hjá mér þegar hún bjó hjá okkur. Ég hef ekki hugmynd um hvar Nína var á meðan.

 

Pabbi vann hjá Vegagerðinni við að hanna brýr og seinna sem Vegamálastjóri.  Það þýddi að við ferðuðumst mjööög mikið um landið á sumrin og stoppuðum við hverja einustu brú til að kíkja undir hana og athuga ástandið á henni.  Við fórum því ekki hratt yfir en þetta þýddi að við Ási fórum að hafa mikinn áhuga á að kasta einhverju út í straumvatn. Það voru steinar á þessum árum en það þróaðist út í flugur. Ég er forfallinn veiðisjúklingur og hef gert tvær myndir um veiði og tvær sjónvarpsséríur með Ása bró. Sú þriðja verður sýnd á RÚV í vor.

 

Ástæðan fyrir því að ég skrifa bækur er einföld. Ég las Jón Odd og Jón Bjarna þegar ég var 8 ára og heimurinn breyttist. Þarna var komin bók um mig og Ása. Mig langaði að skrifa svona bók!

 

Ástæðan er hinsvegar flókin líka. Ég ólst upp við það að hámarkið, loka-takmarkið, hápunkturinn og það allra flottasta í lífinu væri að vera listamaður. Málari eða skáld var mest töff.  Ég ætlaði aldrei að verða það enda fannst manni listamenn vera galdramenn og álíka líklegt að maður gæti orðið svoleiðis eins og að maður gæti orðið Harry Potter. Svo varð ég stór og núna finnst mér ég soldið góður í því og maður á að reyna að að gera það sem maður er góður í. Kannski er ég bara orðinn galdramaður.

 

Hinsvegar skrifaði ég mína fyrstu bók í 8. bekk. Það er að segja, ég átti að skrifa ritgerð eða sögu og  endaði á því að fylla heila stílabók, spjaldanna á milli með sögu um innflytjendur til Ameríku og indjána og vonda karla og það allt. Guðni íslenskukennari var mjög ánægður með afraksturinn og las alla bókina fyrir bekkinn. Það tók heila viku. Mjög erfiða viku fyrir mig en að lestrinum loknum sagði Guðni að ég ætti að gera meira af þessu. Sem ég gerði ekki. Fyrr en í menntaskóla. Þar hitti ég annan kennara sem hvatti mig ákveðið áfram. Það var hann Brynjúlfur. Hann gaf mér reyndar bara 6,0 fyrir smásögu sem var hluti af  lokaeinkunn sem var alveg glatað því ég hafði skrifað sögur fyrir tvo vini mína sem fengu 8,5 og 9,0 fyrir „sínar” sögur. Ég fékk að skrifa aðra sögu og fékk 8,5 fyrir hana.  Ég hafði ætlað að vera svona rosalega djúpur og gáfaður í fyrstu sögunni minni að það skildi hana ekki nokkur maður „þó að stíllinn væri nokkuð góður” eins og Brynjúlfur sagði.

 

Ég var hálfbeygður eftir þetta en náði mér á strik mánuði síðar, því á stúdentsprófinu sjálfu fékk ég nokkur söguefni til að skrifa. Ég valdi „glæpur og refsing” og skrifaði barnasögu. Prófdómararnir gáfu henni 9,5 og það fylgdi með að hún hefði átt að fá 10.0 en það tíðkaðist bara ekki að gefa smásögum 10,0.

 

Þannig að ég fékk það svona smám saman staðfest að ég gæti skrifað.

 

Strax eftir útskrift úr leiklistarskólanum skrifaði ég Gogga og Grjóna. Ég vann sem næturvörður þetta sumar í þjónustuhúsi fyrir aldraða – þar sem amma bjó – og eftir að hafa farið kaffirúntinn til nokkurrra vina minna og fengið pönnukökur hjá ömmu settist ég niður og handskrifaði fyrstu bókina.  Hún kom út tveimur árum síðar og fékk afbragðsdóma og seldist bara vel. Svo skrifaði ég aðra bók um þá félaga en varð svo mjög upptekinn af því að vera leikari. Skrifaði reyndar Grýlu en var að öðru leyti mest í því að leika og leikstýra. Það var svo árið 2008 að ég byrjaði að vinna hjá Latabæ (sá um leikritin þeirra sem eru sýnd út um allan heim) og þá fann ég hvar ég átti heima. Það var í barnaefninu. Barnabókinni. Ég ákvað árið 2010, þegar ég hætti hjá Latabæ að héðan í frá skyldi ég skrifa eina bók á ári fyrir börn.

 

Það hefur tekist og gengið bara ágætlega.

 

 

​

Halaldur.png
Léttfeti.png
bottom of page